Hlustaðu og lestu á sama tíma! Nýr eiginleiki í appinu
Storytel hefur opnað nýjan möguleika fyrir íslenska lesendur sem felst í því að geta lesið texta rafbókar og hlustað á hljóðbók samtímis. Lengi hefur verið kallað eftir þessum möguleika hér á landi en hann getur hjálpað fólki að halda athygli og dýpka lesskilning og er mikilvægur fyrir þá sem eiga erfitt með lestur.
„Þetta er mjög jákvæð viðbót, sérstaklega fyrir þau sem eru að læra að lesa, læra nýtt tungumál eða eiga í erfiðleikum með einbeitingu við lestur,“ segir Lísa Björk Óskarsdóttir, framkvæmdastjóri Storytel á Íslandi. „Þá getur þetta haft verulegan ávinning fyrir þau sem glíma við lesblindu, lestrarörðugleika eða aðra námsörðugleika. Með því að sjá textann og heyra hann lesinn upp samtímis getur fólk betur fylgt eftir textanum, greint orð sem eru erfið í framburði og styrkt þannig orðaforða og málskilning á náttúrulegan hátt.“
Valmöguleikinn sem nú er aðgengilegur notendum Storytel-appsins hér á landi kallast samstillt hlustun eða synced listening. Samstillt hlustun er ekki ennþá í boði í öllum bókum sem finna má á Storytel en unnið er að því fjölga þeim og að sem flestir íslenskir útgefendur á Storytel bjóði upp á þennan valmöguleika.

Í þeim hljóðbókum þar sem boðið er upp á samstillta hlustun smellir fólk einfaldlega á hnapp og þá birtist textinn samhliða á skjánum. Hann lýsist jafnframt upp sem gerir það sérstaklega auðvelt að fylgja lestrinum eftir.
„Markmið Storytel er að opna dyrnar að töfrandi heimi bóka fyrir sem flesta. Við stefnum að því að kynna fleiri tækninýjungar á næstunni sem munu vonandi bæta, efla og auðga upplifun af lestri og hlustun og fjölga þeim sem njóta bóka á íslensku,“ segir Lísa Björk.