Hvað gerist þegar nýskilin miðaldra kona með stórt skap arkar ákveðin út á stefnumótamarkað 21. aldarinnar?

Dagbók miðaldra unglings eftir Sigrúnu Elíasdóttur er gamansöm skáldsaga um blákaldan veruleika konu sem þarf að finna sig á nýjan leik. Sigrún er einna helst þekkt fyrir ljúflestrarbækurnar um Eyrarvík og hlaðvarpið Myrka Ísland, þar sem skuggahliðar Íslandssögunnar eru skoðaðar.
Urður er nýskilin. Hún er komin yfir fertugt. Hún hefur sagt upp starfi sínu sem ósýnileg eiginkona og buguð móðir. Nú þarf hún að svipta rykinu af samskiptahæfileikum og öllum þeim sjarma sem legið hefur í dvala árum saman og taka stóra dýfu út í þann agnarlitla og grugguga poll sem íslenskur stefnumótamarkaður er. Þar svamlar hún án kúta en þó vopnuð óbilandi trú á sjálfri sér.
Dagbók miðaldra unglings er gamansöm saga af samskiptum kynjanna á stafrænni öld, óþægilegum skilaboðum, vandræðalegum uppákomum, dauðum samtölum og brostnum vonum. Dagbók miðaldra unglings er hárbeitt, glettin og stórskemmtileg saga þar sem segja má að rómantík og gaman mæti hversdagslegum hörmungum og hamförum miðlífskrísu og neðanbeltismynda.
Lesari: Birna Pétursdóttir
Útgáfudagur: 21. júlí 2025
Útgefandi: Storytel Original