Sögur Birgittu H. Halldórsdóttur hljóta endurnýjun lífdaga á Storytel!
27 janúar 2025 - Síðast uppfært 10 mars 2025

Birgitta H. Halldórsdóttir skipar sér enn á ný í hóp ástsælustu skáldsagnahöfunda Íslands en bækur hennar hafa haldið fjölda lesenda í greipum spennu og losta, ástar og örlaga áratugum saman. Fyrsta bók hennar kom út árið 1983 en bækur hennar hafa verið ófáanlegar í bókabúðum um árabil. Storytel hefur nýverið endurútgefið fjölda bóka Birgittu sem hljóðbækur sem hafa raðað sér efstar á vinsældalista og hlotið gríðarlega góðar viðtökur og umsagnir hlustenda.
„Það var sannkölluð óvænt ánægja, þegar Birgitta hafði samband og skömmu síðar birtist á skrifborðinu mínu stór kassi yfirfullur af bókum,“ segir Arnór Ingi Hjartarson, ritstjóri Storytel á Íslandi. „Ég vissi það frá fyrstu síðu að þetta væri rödd sem ég vildi heyra meira frá. En mig óraði þó ekki fyrir því hversu kynngimagnað höfundarverk þetta raunverulega væri. Það hefur verið stórkostlegt að fá að vinna með Birgittu og að geta fundið þessum sögum nýjan stað í veröldinni. Frá fyrstu síðunni sem ég las, vissi ég að þessar sögur ættu enn fullt erindi og mikið inni, og þegar kom á daginn að Birgitta býr yfir enn fleiri sögum, fannst mér satt að segja eins og við hefðum fundið einhverja fjársjóðskistu úti í móa.“
Undir óskasólu er ný útgáfa og langþráð framhald bókarinnar Dætur regnbogans sem átt hefur samastað í bókahillum og hjörtum íslensku þjóðarinnar. Hér eru hlustendur færðir á ný á kunnugar slóðir liðinnar tíðar, með þeim vinkonum Halldóru vitru og Margréti ásamt dætrum þeirra og einstökum persónum úr þessum töfrandi söguheimi.
„Ég kannaðist sjálfur ekkert við þessar bækur, en því fleiri sem fengu að skoða ofan í kassann sá ég að margir mundu eftir þeim, úr hillunum hjá mæðrum sínum eða eldri systrum eða eitthvað í þá áttina. Flest mundu vel eftir Dætrum regnbogans og það rann fljótlega upp fyrir mér að sú bók hefur verið einskonar kynslóðaverk, saga sem markaði djúp spor í bókmenningu okkar þó hugsanlega hafi fennt svolítið í þau spor. Bók sem verðskuldaði eftirlíf og jafnvel framhald og það er lyginni líkast að fá að endurnýja kynni landans við þennan heim sem Birgitta skapaði fyrir öllum þessum árum, og þar að auki opna dyrnar fyrir yngri lesendum.“
Birgitta H. Halldórsdóttir er í fararbroddi þeirra höfunda sem ruddu brautina fyrir íslenskar spennu- og glæpasögur. Segja má að hún sé eins konar forveri Arnaldar Indriðasonar, Yrsu Sigurðardóttur og Ragnars Jónassonar, þó hún sé ekki við eina fjölina felld í skáldskapnum heldur skrifar á mörkum margra bókmenntagreina. Sögur hennar rötuðu iðulega á metsölulista bókabúðanna. Þær hafa verið heimakomnar á náttborðum íslenskra bókaunnenda í fjóra áratugi. Nú hafa þær loksins ratað í hljóðbókaformið og hitt svo stórmerkilega í mark hjá hlustendum, að þær skáka jafnvel kónginum sjálfum stöku sinnum.
„Þetta eru sögur sem finna sinn farveg sama hvað, einfaldar sögur í sinni hreinustu mynd, spennandi, fallegar og lokkandi. Ef þú byrjar á þeim þá sleppurðu ekkert svo auðveldlega. Stíll Birgittu einkennist af þessari einstöku frásagnargleði sem hrífur lesandann með sér og fangar hug hans og hjarta með öllu. Alveg töfrandi skáldskaparkraftur,“ segir Arnór ritstjóri og kveðst happadrjúgur og himinlifandi með kynni sín af Birgittu H. Halldórsdóttur.