Konur áttu sviðið á Íslensku hljóðbókaverðlaununum

Mikil kvenorka var á Nasa þegar Íslensku hljóðbókaverðlaunin - Storytel Awards voru afhent, en í fyrsta sinn voru allir verðlaunahöfundar, verðlaunalesarar og heiðursverðlaunahafar konur
Verðlaunin voru veitt í fimm flokkum: skáldsaga, ljúflestur og rómantík, börn og ungmenni, óskáldað efni og glæpa- og spennusaga.
Mikil kvenorka var á Parliament í gærkvöldi þegar Íslensku hljóðbókaverðlaunin - Storytel Awards voru afhent, en í fyrsta sinn voru allir verðlaunahöfundar, verðlaunalesarar og heiðursverðlaunahafar konur
Verðlaunin voru veitt í fimm flokkum: skáldsaga, ljúflestur og rómantík, börn og ungmenni, óskáldað efni og glæpa- og spennusaga.
Vinningshafar 2025 voru eftirfarandi:
- Skáldsaga ársins: Valskan eftir Nönnu Rögnvaldardóttur, lesin af Hildigunni Þráinsdóttur.
- Ljúflestur og rómantík ársins: Dætur regnbogans eftir Birgittu H. Halldórsdóttur, lesin af Svandísi Dóru Einarsdóttur.
- Börn og ungmenni: Sveindís Jane – saga af stelpu í fótbolta eftir Sveindísi Jane Jónsdóttur, lesin af Álfrúnu Helgu Örnólfsdóttur
- Óskáldað efni: Morðin í Dillonshúsi eftir Sigríði Dúu Goldsworthy, lesin af Birgittu Birgisdóttur og Sigríði Dúu Goldsworthy
- Glæpa- og spennusaga ársins: Heim fyrir myrkur eftir Evu Björgu Ægisdóttur, lesin af Anítu Briem og Berglindi Öldu Ástþórsdóttur
Lestrarklefinn hlaut sérstök heiðursverðlaun
Fyrir framlag til umræðu um bókmenntir og lestrarmenningu á Íslandi hlaut Lestrarklefinn sérstök heiðursverðlaun Íslensku hljóðbókaverðlaunanna. Lestrarklefinn er grasrótar-vettvangur sem hefur frá árinu 2018 unnið óeigingjarnt og kraftmikið starf við að halda bókmenntaumræðu á Íslandi lifandi. Á vefnum er fjallað af ástríðu og fagmennsku um bækur í öllum formum – hvort sem um er að ræða prentaðar bækur, hljóðbækur eða rafbækur – auk leikhúss og menningar í víðara samhengi. Með vandaðri umfjöllun, fjölbreyttu efni og persónulegri nálgun hefur Lestrarklefinn veitt aðgengilega bókmenntaumfjöllun og tengt saman lesendur, höfunda og verk á lifandi hátt. Fyrir þetta ómetanlega framlag til lestrarmenningar hlaut Lestrarklefinn heiðursverðlaun Íslensku hljóðbókaverðlaunanna 2025.
Verðlaununum veittu viðtöku stofnendur og ritstjórar Lestrarklefans, Díana Sjöfn Jóhannsdóttir, Katrín Lilja Jónsdóttir og Rebekka Sif Stefánsdóttir.
Fagdómnefndir völdu bestu hljóðbækurnar að undangenginni almenningskosninu
Íslensku hljóðbókaverðlaunin, Storytel Awards eru árleg verðlaun þar sem hljóðbókaunnendur; höfundar, lesarar og útgefendur fagna saman útgáfu vönduðustu hljóðbóka síðasta árs. Að undangenginni almenningskosningu í janúar fóru tilnefndar bækur fyrir sérstakar fagdómnefndir. Elva Ósk Ólafsdóttir leikkona og lesari hjá Storytel var formaður dómnefnda en dómnefndir skipuðu:
- Skáldsögur og glæpa- og spennusögur: Elva Ósk Ólafsdóttir, Árni Árnason og Ingibjörg Iða Auðunardóttir.
- Ljúflestur og rómantík og óskáldað efni: Aníta Briem, Kristjana Mjöll Hjörvar Jónsdóttir og Vera Illugadóttir
- Börn og ungmenni: Jóhann Sigurðarson, Rebekka Sif Stefánsdóttir og Bragi Páll Sigurðarson.
Dómnefndir höfðu það að leiðarljósi að líta heildstætt á hvert verk þar sem vandaður lestur á góðu ritverki getur bætt miklu við upplifun lesandans. Því voru ekki aðeins rithöfundar verðlaunaðir heldur einnig lesarar hljóðbókanna.
Hér má sjá umsagnir dómnefnda fyrir bestu hljóðbækur ársins:
Skáldsaga
Valskan
Höfundur: Nanna Rögnvaldardóttir
Lestur: Hildigunnur Þráinsdóttir
„Sagan um prestsdótturina Völsku er vel stíluð og lifandi saga, jafnframt merkileg heimild byggð á lífi formóður höfundar. Með grípandi frásagnarmáta sínum bíður Nanna okkur með í ferðalag um heim harðrar lífsbaráttu en líka ástar og þrautseigju, á tímum þar sem oft var lítið pláss fyrir allt litróf mannlegra tilfinninga. Persónugallerí sögunnar er bæði litríkt og eftirminnilegt, hvort sem um er að ræða aðal- eða aukapersónur, og lesandi á auðvelt með að setja sig í spor hinnar einstöku og mannlegu Völsku. Það er unun að heyra hvernig Nanna notar dýrmæt og gömul orð sem eru smám saman að hverfa úr okkar tungumáli.
Framúrskarandi lestur Hildigunnar Þráinsdóttur setur svo punktinn yfir i-ið. Með góðum tilbrigðum, áheyrilegum og áreynslulausum lestri, kemur hún þessari stóru sögu afar vel til skila.“ segir í umsögn dómnefndar.
Ljúflestur
Dætur regnbogans
Höfundur: Birgitta H. Halldórsdóttir
Lestur: Svandís Dóra Einarsdóttir
„Skáldsaga Birgittu bar af í þessum flokki. Fallegt og flæðandi tungumál og hrífandi saga sem er bæði hjartnæm og rómantísk og á sama tíma jarðbundin. Einnig er mjög skemmtilegt hvernig persónur úr öðrum bókum hennar fléttast inn og út. Fallegur og hlýr boðskapur sem sæmir vel ljúflestursbókmenntum. Bókin er einnig afar vel lesin og hæfir sögunni vel.“ segir í umsögn dómnefndar.
Börn og ungmenni
Sveindís Jane - saga af stelpu í fótbolta
Höfundur: Sveindís Jane Jónsdóttir
Lestur: Álfrún Helga Örnólfsdóttir
„Hetjusaga ungrar stúlku með einstakan bakgrunn sem hefur þurft að yfirstíga miklar áskoranir í einkalífi sem og samfélaginu. Þrátt fyrir allt þetta mótlæti yfirstígur hún alla erfiðleika og stendur uppi sem sigurvegari, innan vallar sem og utan. Bókin gefur einstaka innsýn inn í annan menningarheim og sýnir fjölbreytileika íslensks samfélags. Einlæg og skemmtileg frásögn með hlýjum og notalegum lestri. Saga af mótun og áskorunum sterkrar stúlku og frábærrar fyrirmyndar.“ segir í umsögn dómnefndar.
Óskáldað efni
Morðin í Dillonshúsi
Höfundur: Sigríður Dúa Goldsworthy
Lestur: Birgitta Birgisdóttir, Sigríður Dúa Goldsworthy
„Sagan hrífur lesandann frá byrjun. Höfundur gerir lífshlaupi forfeðra sinna skil á einstaklega mannlegan og áreynslulausan hátt og snertir djúpt. Einnig gefur sagan fallega innsýn inn í tíðarandann. Þeir tragísku atburðir sem titillinn ber með sér, verða næstum aukaatriði og þá finnst okkur að ætlunarverki höfunda hafi sannarlega verið náð - að heiðra minningu forfeðra sinna. Bókin er afar vel lesin af Birgittu Birgisdóttur og dansar þessa fínu línu að gera nóg, en leyfa samt myndum að vakna sjálfum í huga hlustanda.“ segir í umsögn dómnefndar.
Glæpa- og spennusögur
Heim fyrir myrkur
Höfundur: Eva Björg Ægisdóttir
Lestur: Aníta Briem, Berglind Alda Ástþórsdóttir
„Eva Björg sýnir enn og aftur einstaka hæfni sína í að byggja upp andrúmsloft þar sem grunsemdir krauma undir yfirborðinu og sannleikurinn kemur sífellt á óvart. Frábær flétta og trúverðugar persónur. Með lifandi sögusviði og ísmeygilegri frásagnaraðferð leiðir hún okkur í gegnum flókið net minninga, drauma og duld tengsl úr fortíðinni, þar sem hvarf sextán ára stúlku og óuppgerð leyndarmál mynda áþreifanlega spennu til hinsta orðs. Aníta Briem og Berglind Alda Ástþórsdóttir túlka systurnar Marsí og Kristínu á einstakan hátt sem glæðir söguna lífi og eykur tengsl lesanda við persónurnar. Báðar hafa þær góða tilfinningu fyrir tungumálinu og áheyrilegar raddir.“ segir í umsögn dómnefndar.