Hrekkjavökur eftir Braga Pál og Bergþóru er fyrsta bók þeirra hjóna saman!
1 október 2024 - Síðast uppfært 10 mars 2025

Hjónin Bergþóra Snæbjörnsdóttir og Bragi Páll Sigurðarson hafa um nokkuð skeið gefið út hvassar og hárbeittar skáldsögur og háðsádeilur. Hún skrifar til dæmis um fegurðardýrkun í nútímasamfélagi og hann skáldar upp ótímabæran dauðdaga Arnaldar Indriðasonar. En kvöld eitt þegar þau ætluðu að koma krökkunum í háttinn ráku þau sig á að börnin þeirra eru bara ekki hrædd við nokkurn skapaðan hlut og brugðu því á það ráð að reyna nú að skjóta þeim skelk í bringu. Þau ákváðu því að skrifa hrollvekjandi hrekkjavökusögur fyrir hugrökk börn.
Hrekkjavökur eru hræðilegar og fyndnar sögur fyrir hugrökk börn. Þið mætið allskyns kynjaverum og hrikalegum skepnum sem hafa hrætt líftóruna úr kátum krökkum alla tíð síðan í eldgamla daga. Alræmdu rithöfundarnir og hjónakornin Bergþóra Snæbjörnsdóttir og Bragi Páll Sigurðsson setja allar þessar ófreskjur í nýjan og spennandi búning. Nú er tíminn til að snúa lyklinum í skránni, leiða hjá sér marrið í hurðinni og hvinið í vindinum og hleypa óttanum inn fyrir þröskuldinn... og kannski hlæja smá í leiðinni.