Völundur og Brúðumeistarinn hljóta tilnefningu til Blóðdropans!
27 nóvember 2024 - Síðast uppfært 10 mars 2025

Storytel Original bækurnar Völundur eftir Steindór Ívarsson og Brúðumeistarinn eftir Óskar Guðmundsson hlutu tilnefningu til íslensku glæpasagnaverðlaunanna Blóðdropans 2024. Óskar hefur áður hlotið Blóðdropann fyrir bók sína Hilmu og Steindór hlaut í tilnefningu fyrir Blóðmeri 2023, en Völundur er seinni bókin í sömu seríu.
í umsögn dómnefndar um bækurnar segir:
Brúðumeistarinn: „Vel uppbyggð saga þar sem atburðir úr fortíðinni varpa dökkum skugga á nútímann. Sögufléttan er snjöll og framvindan traust, þar sem hver vendipunktur styrkir heildina. Spennan er óslitin allt til loka, og höfundi tekst listilega að viðhalda leyndardómnum sem heldur lesandanum í heljargreipum.“
Völundur: „Áhugaverð og spennandi frásögn af óhugnanlegum atburðum sem gerast um miðja síðustu öld en enduróma inn í samtímann. Höfundur dregur fram sálarangist útskúfaðra og tengir nútímaviðburði á listilegan hátt við myrk illvirki fortíðarinnar, í áhrifaríkri og hugvitsamlega uppbyggðri sögu sem heldur lesandanum hugföngnum til enda.“